Lang flestar borgir flokka og stigskipta götum eftir hlutverki þeirra. En hvert er hlutverk þeirra?
Að flytja einstakling sem ferðast í bíl sem hraðast og öruggast frá A til B er eitt hlutverk. En hvað með að tengja manneskjur, rými og hverfi saman? Mögulega getur gata sem hreinlega er óhollt að búa nálægt, sökum hljóð- og loftmengunar, gert eitthvað annað en að flytja ókunnugt fólk á ógnarhraða fram hjá hverfum borgarinnar. Mögulega getur þessi gata styrkt innviði hverfisins og á sama tíma borgarinnar í heild. Við Íslendingar þekkjum ekki götur sem ánægjulegan viðverustað og kannski þess vegna hafa fæst okkar íhugað götur sem mikilvægt svæði fyrir samskipti og útiveru. Engu að síður tekur gatnakerfi Reykjavíkur heil 48% af landsvæði borgarinnar, (þ.m.t. bílastæði og helgunarsvæði vega).
Ahmedabad - Bologna - Portland - Reykjavík
Þegar formfræði og götumynd þessa borga er skoðuð kemur ýmislegt fróðlegt í ljós.
AHMEDABAD - INDLAND
map. Allan B. Jacobs, Great Streets, 1995
© TrekEarth
Ahmedabad á Indlandi er ævaforn borg, frá því um 1100 e.Kr og þar búa um 6,4 milljónar manna. Skipulag borgarinnar virðist að sumu leyti vera óreiðukennt og greinilegt er að flestar göturnar voru ekki hannaðar upprunalega til þess að flytja bíla. Engu að síður er það raunin í dag og hefur borgin því þróað á síðari árum af breiðari götum til þess að flytja bíla hratt og örugglega á milli staða. Nýtt kerfi sem er liggur ofan á því eldra.
BOLOGNA - ÍTALÍU
© map. Allan B. Jacobs, Great Streets, 1995
© meandainc
Bologna á Ítalíu er enn eldri borg, síðan 900 e.Kr og þar búa um 1 milljón manna. Gatnakerfi borgarinnar hefur ekki verið breytt mikið í gegnum tíðina, það hefur óreglulegt form, er opið og vel tengt. Greinilegt er að enginn einn borgarhluti er útilokaður frá öðrum. Allt flæði um borgina er gott og liggur flokkun gatnanna að mestu leyti í stærð og breidd þeirra. Borgin og þá sérstaklega miðbærinn, þjáðist lengi vel af mikilli bílaumferð. Árið 2010 var miðbænum lokað fyrir bílaumferð, að undanskildum strætisvögnum og leigubílum. Almenningssamgöngur voru efldar og boðið upp á kerfi með "shared cars" og "shared bicycles" við almenna ánægju íbúa.
PORTLAND - BANDARÍKJUNUM
© map. Allan B. Jacobs, Great Streets, 1995
© boltcity
Portland í Bandaríkjunum er talsvert yngri borg, uppbygging hennar hófst um 1850 og búa þar nú um rúm hálf milljón manna. Borgin hefur mjög sterkt og heillegt ferhyrnt net gatna með breiðum götum og gríðarstórum stofnvegum (til vinstri á korti). Í fljótu bragði mætti halda að göturnar væru yfirráðasvæði bíla með tilheyrandi vanköntum en svo er ekki raunin. Portland hefur gott kerfi almenningssamgangna. Meðal annars léttlestarkerfi á götum borgarinnar, gott net hjólastíga á götunum sem og breiðar gangstéttir. Þetta, ásamt mikið af gróðri hefur gert götur og samgöngukerfi Portland að fyrirmynd í Bandaríkjunum.
REYKJAVÍK - ÍSLANDI
map. Sigurborg Ó. Haraldsdóttir
© María Theodórsdóttir
Reykjavík á Íslandi er borg frá því um 1800 en óx að mestu eftir seinni heimstyrjöld. Á höfuðborgarsvæðinu búa rúmlega 200.000 manns. Þetta svæði sem sýnt er á kortinu að ofan hefur að öllu leyti verið skipulagt fyrir samgöngur á einkabílum og hugmyndafræðin eftir því. Hér eru stofnbrautir auðsjáanlegar og flokkun gatna er gerð með útilokun. Kerfið er lokað og illa tengt, sérstaklega þegar litið er á hvert hverfi fyrir sig sem og tenginu á milli hverfa. Frá því um 1960 hefur þróunin verið í átt að enn stærri stofnbrautum og sífellt fleiri botnlöngum. Hvað hefur sú þróun fært borginni? Meiri umferð, meiri hávaða, meiri mengun og einangruð hverfi. Óöruggar og ófærar götur, fyrir alla nema þá sem kjósa að ferðast á bíl.
Er raunhæft að snúa þessari þróun við? Er raunhæft að gera götur borgarinnar að ánægjulegum viðverustað og mikilvægu rými fyrir samskipti og útiveru?Hvað finnst þér?